Um Ullarverið

You are here:

Ullarvinnslan

Eitt af aðalmarkmiðum Ullarversins er að draga úr sóun og auka nýtingu á ull sem hráefni. Með því að bjóða upp á grunnvinnslu á ull svo sem snoði og sumarull erum við að stuðla að hringrásarhagkerfi og hámarka verðmæti staðbundinna auðlinda. 

Hugmyndafræðin

Grunn hugmyndin er ullarvinnsla fyrir einstaklinga eða smáframleiðendur sem vilja nýta eigin ull eða fá ull til hannyrða eða framleiðslu á eigin vöru. Lokaafurð Ullarversins getur verið mjög mismunandi, sumir vilja nýta ullina til að spinna aðrir vilja þæfa og enn aðrir byggja framleiðslu ýmissar vöru á ull sem hráefni.

Ullarverinu er ætlað að koma til móts við þennan markað með grunnvinnslu á ull, ullarþvott, tætingu og að setja í kembu eða lyppu.

Fræðsla og miðlun upplýsinga verður einnig stór þáttur í starfsemi Ullarversins. Námskeiðahald og viðburðir tengdir ullarvinnslu verða í boði.

Hnallþóra frá Sölvholti

Ljósmyndari: Dodda

Nebbína frá Sölvholti. Ljósmynd: Dodda

Nebbína frá Sölvholti.

Ljósmyndari: Dodda

Gildi Ullarversins

Ullarverið mun leggja áherslu á fræðslu og upplýsingagjöf um mikilvægi sjálfbærni í ullarvinnslu. Með því að deila þekkingu og starfsaðferðum mun Ullarverið fræða viðskiptavini og samfélagið um mikilvægi sjálfbærar framleiðslu og hvernig hver og einn getur lagt sitt af mörkum til umhverfisverndar.

Þjónusta Ullarversins

Ullarþvottur

Ullarverið tekur að sér ull frá einstaklingum og smáfyrirtækjum til að þvo.

Tvenns konar þvottur er í boði. Annars vegar þvottur á snoði og vetrarull sem er mjög óhreint. Þá er ullin þvegin þrisvar sinnum úr mjög heitu vatni með góðu þvottaefni.

Hins vegar er þvottur á haustull sem er þvegin á mun lægra hitastigi og aðeins einu sinni með sápu.

Tæting

Ullarverið er að vinna í að festa kaup á ullartætara til að geta tætt ull eða opnað hana. Fyrsta vinnslustig ullarinnar verður þá þvottur og tæting og hægt að fá ullina afhenta þannig til frekari vinnslu.

Kemba eða Lyppa

Hægt verður að fá ullina afhenta í kembu eða lyppu eftir óskum viðskiptavina.

Spunnið í band

Loka markmið Ullarversins er að festa kaup á spunavélum. Þá verður hægt að afhenda ullina fullunna í garni.